mið 07.des 2022
Heiðar leitar sér að einhverju öðru - Tekur Andri Steinn við?
Heiðar Helguson og Davíð Smári Lamude.
Andri Steinn Birgisson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Fyrrum landsliðsmaðurinn Heiðar Helguson er búinn að láta Kórdrengi vita að hann ætli sér að leita að öðru starfi fyrir næsta sumar.

Sögusagnir hafa verið um það að Heiðar muni taka við sem aðalþjálfari liðsins af Davíð Smára Lamude sem hætti eftir síðustu leiktíð og tók við Vestra.

Heiðar er fyrrum landsliðsmaður og atvinnumaður til margra ára. Undanfarin ár hefur hann verið aðstoðarþjálfari Davíðs Smára hjá Kórdrengjum.

„Ég er ekki í viðræðum og ég er búinn að tala við þá um að ég ætli að leita mér að einhverju öðru," segir Heiðar í samtali við Fótbolta.net en hann mun ekki taka við Kórdrengjum eins og staðan er í dag.

„Mig langar að halda áfram í fótboltanum og langar að leita mér að einhverju öðru, allavega er staðan þannig í dag. Ég er búinn að vera hjá Kórdrengjum í tvö ár og núna er Davíð farinn. Mig langar að prófa eitthvað annað."

Fer ekki með Davíð Smára til Vestra
Hann og Davíð Smári unnu saman hjá Kórdrengjum, en Heiðar fer ekki með honum til Vestra. Hann hefur ekki tök á því.

„Ég hef ekki tök á því. Því miður. Ég væri meira en til í að vinna með honum en ég hef ekki tök á því," segir Heiðar.

Tekur Andri Steinn við?
Andri Steinn Birgisson, sem var aðstoðarþjálfari Kórdrengja áður en Heiðar tók til starfa, hefur einnig verið orðaður við starfið en hann vildi ekki tjá sig þegar Fótbolti.net leitaðist eftir svörum hjá honum fyrr í vikunni.

„Það er bara 'no comment'," sagði Andri Steinn.