mið 07.des 2022
Atli Hrafn fer frá ÍBV
Atli Hrafn Andrason verður ekki áfram í ÍBV, þetta staðfesti hann við Fótbolta.net í dag.

Samningur Atla við félagið rennur út um áramótin.

Atli er búinn að finna sér annað félag og er líklega ekki langt í að hann verður tilkynntur nýr leikmaður þess.

Atli gekk í raðir ÍBV frá Breiðabliki í maí í fyrra. Á liðnu tímabili lék hann 21 deildarleik með ÍBV og einn bikarleik.

Hann er 23 ára kantmaður sem lék á sínum tíma 23 leiki fyrir yngri landsliðin. Hann er uppalinn í KR og hefur einnig leikið með Víkingi, Breiðabliki og ÍBV á Íslandi.

Þá var hann í U18-U21 hjá Fulham á árunum 2016-2018.