mið 07.des 2022
Ágúst Hlyns í Breiðablik (Staðfest)
Mættur aftur í grænt
Ágúst Eðvald Hlynsson er genginn í raðir Breiðabliks frá danska félaginu Horsens. Þetta hefur Breiðablik staðfest og segir í tilkynningu félagsins: „Heima er best, velkominn Ágúst Eðvald Hlynsson"

Ágúst er uppalinn hjá Þór og Breiðabliki og lék sína fyrstu meistaraflokksleiki árið 2016. Í kjölfarið fór hann til Norwich á Englandi, þaðan til Bröndby og kom svo til Íslands árið 2019 og spilaði með Víkingi.

Eftir tímabilið 2020 var hann seldur til Horsens en lék með FH á láni í upphafi móts 2021. Á liðnu tímabili lék hann svo með Val.

Ágúst er 22 ára miðjumaður sem á að baki 35 leiki fyrir yngri landsliðin, þar af ellefu fyrir U21. Í 91 deildar- og bikarleik á Íslandi hefur hann skorað sextán mörk.

Á liðnu tímabili skoraði hann tvö mörk í 26 leikjum með Val. Ágúst skrifar undir þriggja ára samning við Breiðablik. Hann var samningsbundinn Horsens og því þurfti Breiðablik að ná samkomulagi við danska félagið um félagaskiptin. Valur vildi einnig fá Ágúst en hann valdi Breiðablik á endanum eins og Arnar Laufdal Arnarsson, fréttamaður Fótbolta.net, greindi frá síðasta fimmtudag.

Sjá einnig:
Ágúst var sá yngsti en Kristian sló metið