mið 07.des 2022
[email protected]
Rosalega áhugaverður leikur út frá þjálfarasjónarmiðinu
 |
Harry Kane og Kylian Mbappe. |
Margir bíða með mikilli eftirvæntingu eftir leik Englands og Frakklands í 8-liða úrslitum HM á laugardagskvöld.
Davíð Snorri Jónasson, þjálfari U21, landsliðs Íslands, er virkilega spenntur fyrir leiknum og hvernig hann mun spilast.
„Það verður mjög forvitnilegt að sjá hvernig England - Frakkland spilast því Frakkarnir geta sett sig í hvaða líki sem er. Ætla þeir að leyfa Englendingunum að koma og ætla Englendingar að þora að fara á þá? Út frá þjálfarasjónarmiðinu get ég ekki beðið eftir því að sjá þennan leik þó ég held að hann verði ekki nein flugeldasýning," segir Davíð í HM hringborðinu.
Davíð gæti jafnvel séð Gareth Southgate skipta um kerfi og fara í þriggja miðvarða vörn í leiknum.
„Ég get alveg séð það. Southgate reyni að spila út á Frakkana. Englendingar eru samt heitir og spurning hvort rétt sé að spila eins og þeir hafa gert. Frakkar eru heimsmeistararnir og eru góðir í öllum fösum leiksins." Þrátt fyrir að missa Ballon d'Or gullboltahafann Karim Benzema í meiðsli rétt fyrir mótið er enginn að tala um það núna. Olivier Giroud hefur spilað óaðfinnanlega í fremstu víglínu.
„Miðað við áföllin; missa Kante, Pogba og Benzema, hvað þeir eru eins smurð vél þó þessir heimsklassa leikmenn detti út. Þeir eru ógnvekjandi og Mbappe er svakalegur," segir Davíð.
|