mið 07.des 2022
Tilkynning frá Horsens: Okkur tókst ekki að ná því besta úr Ágústi
Ágúst í leik með Val í sumar.
Danska félagið Horsens hefur sent frá sér tilkynningu um söluna á Ágústi Hlynssyni til Íslandsmeistara Breiðabliks.

Ágúst, sem er 22 ára gamall miðjumaður, er uppalinn hjá Þór og Breiðabliki og lék sína fyrstu meistaraflokksleiki árið 2016. Í kjölfarið fór hann til Norwich á Englandi, þaðan til Bröndby og kom svo til Íslands árið 2019 og spilaði með Víkingi.

Eftir tímabilið 2020 var hann seldur til Horsens en lék með FH á láni í upphafi móts 2021. Á liðnu tímabili lék hann svo með Val á láni.

Í tilkynningu frá Horsens er Ágústi óskað alls hins besta en jafnframt kemur Niels Erik Søndergård, sem er yfirmaður fótboltamála hjá félaginu, inn á það að Ágúst hafi ekki náð að sýna sínar bestu hliðar hjá félaginu.

„Við töldum Ágúst mjög efnilegan þegar við keyptum hann haustið 2020, en okkur tókst ekki að ná því besta úr honum. Þess vegna fór hann tvisvar á láni. Við erum mjög ánægðir að hann sé kominn til félags sem mun spila í forkeppni Meistaradeildarinnar á næstu leiktíð. Við óskum honum alls hins besta," segir Søndergård.