mið 07.des 2022
Meistaradeild kvenna: Cloe Lacasse skoraði tvö - Rosengard úr leik
Guðrún Arnardóttir í leik með Rosengard

Tveimur leikjum af fjórum sem fram fara í kvöld í Meistaradeild kvenna er lokið.Benfica og Rosengard mættust í D riðli og Lyon fékk Zurich í heimsókn í C-riðli. Rosengard átti það á hættu að falla úr leik í kvöld og Lyon gat farið upp fyrir Juventus í 2. sæti riðilsins tímabundið að minnsta kosti.

Cloe Lacasse fyrrum leikmaður ÍBV átti frábæran leik fyrir Benfica sem lenti undir gegn Rosengard eftir hálftíma leik. Lacasse skoraði þó tvö mörk í röð áður en flautað var til loka fyrri hálfleiks.

Nycole Raysla gulltrygði 3-1 sigur Benfica með marki í upphafi síðari hálfleiks. Guðrún Arnardóttir lék allan leikinn í miðverðinum hjá Rosengard sem er nú fallið úr leik í Meistaradeildinni.

Lyon vann öruggan 4-0 sigur á Zurich en franska liðið er nú í 2. sæti með jafnmörg stig og topplið Arsenal og tveimur stigum á undan Juventus. Arsenal og Juventus mætast núna kl. 20 en Sara Björk Gunnarsdóttir byrjar á bekknum hjá Juventus.

Glódís Perla Viggósdóttir er í byrjunarliði Bayern Munchen sem mætir Barcelona á Allianz Arena kl. 20. Barcelona vann fyrri leik liðanna á Spáni 3-0. Bayern getur jafnað Barcelona að stigum með sigri í kvöld.

Lyon W 4 - 0 Zurich W
1-0 Lindsey Horan ('14 )
2-0 Melvine Malard ('65 )
3-0 Melvine Malard ('79 )
4-0 Delphine Cascarino ('90 )

Rosengard W 1 - 3 SL Benfica W
1-0 Olivia Schough ('30 )
1-1 Cloe Lacasse ('37 )
1-2 Cloe Lacasse ('40 )
1-3 Nycole Raysla ('47 )