fim 08.des 2022
Atli Hrafn gerir tveggja ára samning við HK

HK hefur staðfest komu Atla Hrafns Andrasonar til félagsins en hann gerir tveggja ára samning við Kópavogsliðið. HK tryggði sér sæti í Bestu deildinni næsta sumar en liðið endaði í 2. sæti í Lengjudeildinni síðasta sumar.



Atli kemur frá ÍBV en leikmaðurinn staðfesti það í samtali við Fótbolta.net að hann væri að yfirgefa félagið en Eyjaliðið sagði síðar frá því að hann væri farinn til HK.

Kópavogsliðið staðfesti það svo í gærkvöldi.

Atli er 23 ára kantmaður sem hefur einnig leikið með Breiðabliki, Víkingi og KR á sínum ferli. Þá var hann á mála hjá enska félaginu Fulham á árunum 2016-18.