fim 08.des 2022
Senda frá sér yfirlýsingu út af fréttaflutningi um Ronaldo
Cristiano Ronaldo.
Portúgalska fótboltasambandið hefur sent frá sér yfirlýsingu í kjölfarið á fréttaflutningin fjölmiðils þar í landi um Cristiano Ronaldo.

Record, sem er stór fjölmiðill í íþróttalífinu í Portúgal, birti frétt í morgun þess efnis að Ronaldo hefði hótað því að yfirgefa portúgalska landsliðið á HM í Katar eftir að hafa verið settur á bekkinn gegn Sviss í 16-liða úrslitunum.

Portúgalska sambandið segir ekkert til í þessum fréttum. „Cristiano Ronaldo, fyrirliði landsliðsins, hótaði því aldrei að yfirgefa hópinn."

Í yfirlýsingunni segir einnig að það skuli bera virðingu fyrir Ronaldo og því sem hann hefur afrekað. Hann hefur sýnt að hann sé staðráðinn í að hjálpa Portúgal að ná sínum besta árangri á heimsmeistaramóti.

Ronaldo, sem er 37 ára, er einn besti fótboltamaður sögunnar en hann er á niðurleið á sínum ferli. Það verður fróðlegt að sjá hvort hann muni byrja gegn Marokkó í átta-liða úrslitunum.