fim 08.des 2022
Valgeir: Ef ég hefði farið þá hefði tækifærið hjá Örebro ekki komið
Valgeir Valgeirsson
Ég veit að ég get gert betur, þetta var vonbrigðatímabil og það er ekkert flóknara en það
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Einar lét mig vita að þeir hefðu áhuga á mér og það gæti farið eitthvað lengra.
Mynd: Örebro

„Ég heyrði að það var áhugi á mér, Einar Guðna sem starfar hjá félaginu heyrði í mér og talaði um Örebro við mig. Hann lét mig vita að þeir hefðu áhuga á mér og það gæti farið eitthvað lengra. Ég lét strax vita að ég hefði áhuga á því og fór út á endanum," sagði Valgeir Valgeirsson.

HK-ingurinn samdi við sænska félagið Örebro í lok júlí er því búinn að vera í hálft ár í Svíþjóð. Valgeir er tvítugur U21 landsliðsmaður og hefur áður spilað erlendis, var á láni hjá Brentford B veturinn 2020-21.

„Eftir að þú kemur heim úr atvinnumennsku er hugsunin sú að fara strax aftur út. Það tók lengri tíma fyrir mig en ég vildi, en ég er mjög ánægður að vera kominn aftur út og vona að ég verði þar mjög lengi."

„Ég vissi ekki mikið um Örebro en var strax spenntur, fór strax að skoða liðið, vissi að þeir hefðu verið í Allsvenskunni (efstu deild) í langan tíma áður en þeir féllu í fyrra. Markmiðið þeirra var að fara strax aftur upp og ég hafði áhuga á því að fara í lið sem vildi fara strax aftur upp og spila síðan í efstu deild í Svíþjóð. Ég er mjög ánægður með þessa ákvörðun sem ég tók."


Valgeir segir að Örgryte hafi einnig haft áhuga á sér. Á þeim tíma var gamli þjálfari Valgeirs hjá HK, Brynjar Björn Gunnarsson, að þjálfa Örgryte.

„Það voru þessi tvö lið sem höfðu áhuga á mér. Á endanum valdi ég Örebro vegna þess að ég vildi prófa eitthvað nýtt."

Valgeir var orðaður við Breiðablik, KR og Víking síðasta vetur. Var hann nálægt því að fara frá HK í íslenskt félag?

„Auðvitað hafði ég áhuga á að fara í efstu deild í lið sem er að berjast um titla. Í slíku liði er líklegra að þú farir út. Það náðist ekki samkomulag milli liðanna sem höfðu áhuga á mér og HK. Síðan kom þetta upp með Örebro sem náði samkomulagi og ég er ánægður með að það hafi gerst. Ferillinn er ekki langur og maður vill vera eins lengi og maður getur úti."

Var Valgeir svekktur þegar tímabilið var að byrja og hann var í HK en ekki í liði í efstu deild?

„Ég get alveg viðurkennt það. Ég var í tvö ár í efstu deild, fór svo til Brentford, tók þriðja tímabilið í efstu deild og fór svo niður. Auðvitað vill maður vera í efstu deild. Í dag er ég ánægður að ég fór ekki því þá hefði tækifærið hjá Örebro ekki komið."

Þegar Valgeir fór út var HK í góðri stöðu í Lengjudeildinni og allt benti til þess að liðið færi upp. Gerði það ákvörðunina auðveldari?

„Já, ég hefði viljað klára tímabilið með þeim ef þetta hefði verið algjört 50:50 hverjir væru að fara upp. Það sáu allir að líklegustu liðin voru Fylkir og HK, sem svo gerðist."

„Ég er uppalinn HK-ingur og elska liðið af öllu hjarta. Auðvitað var ég hrikalega ánægður þegar sætið í efstu deild var tryggt. Núna þarf HK að halda sér uppi og vera eins lengi og hægt er í efstu deild. Vonandi mun liðinu ganga vel á næsta tímabili."


Tímabilið 2022 hjá Valgeiri með HK, var hann ánægður með sjálfan sig?

„Nei, alls ekki. Ég veit sjálfur hvað ég get, það er alltaf ástæða fyrir því þegar maður stendur sig vel í efstu deild og fer út í kjölfarið. Það er út af því að maður er góður í fótbolta. Ég veit að ég get gert betur, þetta var vonbrigðatímabil og það er ekkert flóknara en það."

Kom það Valgeiri á óvart að það var áhugi erlendis frá?

„Já, ég veit sjálfur að ég átti ekki gott tímabil. Ég kom heim frá Brentford og liðinu gekk ekki vel, síðan fer maður niður og þá gengur liðinu vel en þér ekki gengur ekkert rosalega vel. Ég er þakklátur fyrir að Örebro hafði áhuga á mér og vildi fá mig," sagði Valgeir.

Í viðtalinu ræðir Valgeir um tímann til þessa í Örebro, Axel Óskar Andrésson, stöðu á vellinum og ýmislegt annað. Hægt er að sjá það í heild sinni í spilaranum efst.