fim 08.des 2022
„Það var ekki í boði fyrir mig að fara til Færeyja með stærsta liði Íslands og tapa"
Gunnar Nielsen
Gunnar Nielsen er landsliðsmarkvörður Færeyja, hann er 36 ára gamall og á að baki sjötíu landsleiki. Hans sjötugasti landsleikur var vináttuleikur gegn Tékklandi í síðasta mánuði.

Gunnar ákvað að fara frá FH eftir tímabilið og er í dag án félags. Hann hefur ekki tekið ákvörðun hvort hann muni halda áfram í boltanum.

Gunnar var til viðtals hér á Fótbolti.net fyrr í vikunni og var spurður hvort að færeyska landsliðið héldi sér gangandi í að mögulega halda áfram.

„Langskemmtilegustu verkefnin eru að spila fyrir færeyska landsliðið. Þegar ég horfi til baka þá eru það hápunktarnir, það er búið að halda mér gangandi svo oft þegar það hefur kannski verið erfitt hjá félagsliðinu. Ég ætla ekki að spila áfram bara til að spila áfram. Ég þarf að hugsa þetta, það yrði mjög erfitt að hætta spila fyrir landsliðið. Ég hef alltaf verið stoltur af því að spila fyrir Færeyjar," sagði Gunnar.

Aðspurður um hápunkta á tíma sínum hjá FH nefndi Gunnar sérstaklega leik í forkeppni Meistaradeildarinanr gegn færeyska liðinu Víkingi frá Götu.

„Við fórum til Færeyja 2017 til að spila í Þórshöfn. Við gerðum jafntefli 1-1 í heimaleiknum og þeir hugsuðu að þeir gætu tekið FH. Það var ekki í boði fyrir mig að fara til Færeyja með stærsta liði Íslands og tapa. Það var mjög mikilvægt að vinna þann leik," sagði Gunnar. Leikurinn vannst 0-2 og voru það þeir Þórarinn Ingi Valdimarsson og Steven Lennon sem skoruðu mörk FH.

Viðtalið við Gunnar má sjá hér að neðan.