fös 09.des 2022
Lloris fer fögrum orðum um Kane: Þurfum að vera klárir í vítakeppni
Hugo Lloris.
Mynd: EPA

Hugo Lloris, markvörður og fyrirliði franska landsliðsins, þekkir enska landsliðið út í gegn. Enda spilar Lloris fyrir Tottenham í ensku úrvalsdeildinni.

„Tvö yngstu börnin mín fæddust á Englandi og dætur mínar hafa alist upp þar. Það er rígur milli Englands og Frakklands í fótboltanum, tvær risastórar fótboltaþjóðir," segir Lloris sem sat fyrir svörum á fréttamannafundi í morgun.

„England er með metnaðarfullt lið. Þeir eru mættir hingað til að vinna þessa keppni og eru ekki með neina sérstaka veikleika."

Lloris segir að franska liðið verði búið undir það að úrslitin ráðist í vítakeppni á morgun og þar myndi Harry Kane, liðsfélagi hans og fyrirliði hjá Tottenham, stíga á punktinn.

„Þið vitið jafnvel og ég að Harry hefur hæfileika til að skjóta hvert sem er á markið. Hann er ein besta vítaskytta heims. Sama hvað maður greinir fyrir vítakeppni þá snýst þetta að lokum um tilfinninguna sem þú hefur."

„Áður en það kemur að vítakeppni þá er tími til að gera gæfumuninn inni á vellinum. Svona leikir geta ráðist á smáatriðum og við verðum að vera búnir undir allar aðstæður."

Lloris fór lofsamlegum orðum um Kane á fundinum.

„Við höfum mjög sterkt samband. Við höfum verið samherjar í níu ár og þekkjum hvorn annan mjög vel innan og utan vallar. Ég hef bara jákvæða hluti að segja. Hann er mjög mikilvægur fyrir liðið og yrir enska landsliðið líka," segir Lloris.

„Hann er sannur leiðtogi, fyrirmynd fyrir liðsfélaga sína og toppleikmaður. Hann hefur gert gæfumuninn fyrir Tottenham og verður ákveðinn í því á morgun að koma Englandi áfram."