fös 09.des 2022
Griezmann geggjaður í nýrri stöðu og hefur siglt undir radarinn í umræðunni
Antoine Griezmann.
Julien Laurens, sérfræðingur um franska fótboltann, segir að frammistaða Antoine Griezmann með franska landsliðinu hafi siglt undir radarinn í umræðunni.

„Frammistaða Griezmann í nýrri stöðu er ein af sögum mótsins. Hann er að spila sem 'átta' hægra megin á þriggja manna miðju. Eitthvað sem við bjuggumst ekki við. Það var búist við að hlutverk hans yrði áfram sem sóknarmaður," segir Laurens.

„Fyrir tveimur árum sagði Didier Deschamps við Griezmann í morgunmat: 'Þú yrðir frábær sem djúpur miðjumaður'. Griezmann átti ekki von á þessu og þeir hlóu að þessu en hugmyndin lifði í huga Deschamps."

„Deschamps þurfti að fara aðrar leiðir vegna meiðsla N'Golo Kante og Paul Pogba. Þá hugsaði hann um að nota Griezmann á miðsvæðinu. Hann er svo snjall, hann er með mikla leikgreind og hættir aldrei að hlaupa. Griezmann hefur verið svo mikilvægur fyrir jafnvægið í liðinu og hann kemur með mikið flæði," segir Laurens.

Gríðarlega klókur leikmaður
Kieran Trippier, leikmaður enska landsliðsins, þekkir Griezmann virkilega vel og segir að það þurfi að passa vel upp á hann. Þeir spiluðu saman hjá Atletico Madrid. England og Frakkland mætast í 8-liða úrslitum HM annað kvöld.

„Hann er svo snjall í að finna sér svæði. Hann er með einstaklingsgæði til að finna sendingar, skora mörk og vera mættur í teiginn. Griezy er frábær leikmaður og við þurfum að hafa góðar gætur á honum," segir Trippier.

Trippier og Griezmann voru nánir þegar þeir voru liðsfélagar hjá Atletico.

„Við vorum nágrannar og vörðum miklum tíma saman utan vallar. Við sem vorum á sama svæði vorum eins og stór fjölskylda. Hann hjálpaði mér með tungumálið og var mikilvægur. Við fórum í grillveislur til hvors annars og samheldnin var mikil."