fös 09.des 2022
Felix spurður út í Ronaldo umræðuna: Ættum að standa þéttar saman
Joao Felix.
Hinn 23 ára gamli Joao Felix sat fyrir svörum á fréttamannafundi í Katar í dag. Portúgal mætir Marokkó í 8-liða úrslitum HM á morgun en umræðan í kringum portúgalska liðið hefur að mestu snúist að Cristiano Ronaldo.

Felix var spurður út í alla fjölmiðlaumræðuna varðandi Ronaldo.

„Ég vil senda skilaboð til portúgölsku þjóðarinnar og til fjölmiðlafólks. Portúgal er í magnaðri keppni og í fyrsta sinn í langan tíma höfum við náð í 8-liða úrslit Við ættum öll að standa þéttar saman og reyna að skaða ekki andrúmsloftið," sagði Felix.

Ronaldo var settur á bekkinn fyrir leikinn gegn Sviss og án hans fór portúgalska liðið á kostum og vann 6-1 þar sem Goncalo Ramos, sem kom inn í liðið fyrir Ronaldo, skoraði þrennu.

Felix var spurður út í muninn á spilamennsku portúgalska liðsins með Ronaldo og án hans.

„Við spilum sama kerfi, sama hvort Ronaldo er á vellinum. Hann hefur hæfileika sem aðrir eru ekki með og öfugt. Við erum með okkar einkenni sem lið og einbeitum okkur að því. Við spilum fótboltann sem við þekkjum."