fös 09.des 2022
Santos: Tímabært að láta Ronaldo í friði
Fernando Santos og Cristiano Ronaldo.
Mynd: EPA

Fernando Santos, þjálfari portúgalska landsliðsins, var að sjálfsögðu spurður út í Cristiano Ronaldo á fréttamannafundi í dag. Portúgal mætir Marokkó á morgun í 8-liða úrslitum HM.

„Ég tel tímabært að láta Ronaldo í friði. Hann sagði aldrei við mig að hann vildi yfirgefa hópinn og ég held að það sé rétti tímapunkturinn að loka á þessa umræðu. Hættum þessum pælingum," segir Santos.

Santos tók þá stóru ákvörðun að geyma Ronaldo á bekknum gegn Sviss í 16-liða úrslitum. Án Ronaldo fór portúgalska liðið á kostum og vann 6-1 þar sem Goncalo Ramos, sem kom inn í liðið fyrir Ronaldo, skoraði þrennu.

„Á leikdegi talaði ég við hann eftir hádegismatinn og bauð honum inn á skrifstofuna mína. Af augljósum ástæðum var Cristiano ekki ánægður því hann hefur alltaf verið byrjunarliðsmaður. Hann spurði mig hvort mér þætti þetta virkilega vera góða hugmynd. En við áttum eðlilegt samtal þar sem ég útskýrði mitt sjónarmið og hann meðtók það. Við áttum gott og eðlilegt samtal."

Þurfa að spila óttalausir gegn Marokkó
Mótherjarnir í Marokkó hafa sýnt að þeir eru engir aukvisar, þeir hafa spilað agaðan og öflugan varnarleik. Marokkó hefur aðeins fengið eitt mak á sig á mótinu og það var sjálfsmark.

„Marokkó er virkilega sterkt lið. Þeir eru gríðarlega vel skipulagðir með leikmenn sem spila fyrir Chelsea, PSG og Bayern München. Við þurfum að finna lausnir. Leikmenn mínir eru meðvitaðir um að þetta verður erfiður leikur og við þurfum að spila óttalausir," segir Santos.

Leikur Marokkó og Portúgals verður klukkan 15.