fös 09.des 2022
Hver er maðurinn sem Ben White reifst við?
Southgate og Holland
Ben White
Mynd: Getty Images

Í gær var greint frá því að ástæða þess að Ben White hefði farið heim af HM væri sú að hann hefði rifist við aðstoðarþjálfara enska landsliðsins. Steve Holland er sá þjálfari og er hann einn af aðstoðarmönnum Gareth Southgate.

Rifrildið átti sér stað fyrir framan allan landsliðshópinn á fundi fyrir jafnteflið gegn Bandaríkjunum. Þá er talað um að hann hafi ekki fundið sig nægilega vel innan hópsins og liðið illa í æfingabúðunum. Því hafi verið tekin sameiginleg ákvörðun um að hann skyldi fara heim.

En hver er Steve Holland? Það þekkja færri til aðstoðarmanna Southgate heldur en leikmanna liðsins.

Holland er 52 ára gamall og átti stuttan leikmannaferil sem litaðist af meiðslum. Hann var hjá Derby, Bury, Husqvarna, Northwich og Hyde áður en hann fór í þjálfun 21 árs gamall.

Hann var einn yngsti aðilinn í sögunni til að fá full þjálfararéttindi frá enska sambandinu og fór fljótlega eftir það til Crewe þar sem hann vann sig upp flokkana allt upp í aðalliðið þar sem hann varð einn af teyminu.

Árið 2009 fór hann svo til Chelsea og byrjaði hjá varaliðinu. Í kjölfarið varð hann hluti af aðalliðsteyminu og vann hann undir Andre Villas-Boas, Roberto Di Matteo, Rafa Benítez, Jose Mourinho og Antonio Conte.

Hann vann með Southgate hjá U21 landsliðinu á meðan hann var að vinna hjá Chelsea en fór frá Chelsea þegar Southgate tók við landsliðsþjálfarastarfinu af Sam Allardyce og tók Holland þá við sem aðstoðarlandsliðsþjálfari.

Fyrir ári síðan fékk hann svo MBE orðuna fyrir vinnu sína í þjálfun eftir að enska landsliðið komst í úrslit EM.

Var ekki með mikilvægar upplýsingar á hreinu
Daily Star segir að White og Holland hafi rifist því að White hafi mætt á liðsfund og var ekki með mikilvægar upplýsingar á hreinu sem Holland var ekki hrifinn af.

Hjá Arsenal er White í mun stærra hlutverki en hjá landsliði sínu, hann hafði byrjað alla 14 úrvalsdeildarleiki Arsenal fyrir HM. Enginn var kallaður inn í enska landsliðshópinn í stað White. Annað kvöld leikur England gegn Frakklandi í 8-liða úrslitum HM.