fös 09.des 2022
HM: Brasilía úr leik - Enn og aftur vinnur Króatía í vító
Marquinhos skaut í stöngina í vítakeppninni.
Livakovic er ein af stjörnum mótsins.
Mynd: Getty Images

Króatía 1 - 1 Brasilía
0-1 Neymar ('105)
1-1 Bruno Petkovic ('117)

Króatía vann vítaspyrnukeppnina 4-2

Brasilía, sem talið var sigurstranglegasta lið HM, er úr leik. Liðið tapaði fyrir Króatíu eftir framlengingu og vítaspyrnukeppni.

Króatar mættu ákveðnir til leiks og voru afskaplega öflugir á miðsvæðinu, með Luka Modric í miklu stuði. Fyrri hálfleikurinn var hnífjafn og fátt um færi.

Í seinni hálfleiknum áttu Brasilíumenn fleiri marktilraunir en gekk erfiðlega að finna leiðina framhjá markverðinum Dominik Livakovic sem er fullur sjálfstrausts. Hann varði meðal annars frá Neymar sem var í hörkufæri og bjargaði Josko Gvardiol frá því að skora sjálfsmark.

Brasilíumenn reyndu að hleypa auknu lífi í sóknarleik sinn. Antony, Rodrygo og Pedro komu inn af bekknum í stað Raphinha, Vinicius Junior og Richarlison.

Á lokakaflanum var greinilegt að Króatar voru sáttari með að fara með leikinn í framlengingu. Staðan markalaus eftir 90 mínútna leik þar sem Brasilía átti sjö marktilraunir á rammann en Króatar náðu hinsvegar aldrei að láta reyna á Alisson í marki Brasilíu. Framlengja þurfti leikinn.

Í bálok fyrri hálfleiks framlengingar þá skoraði Neymar frábært mark, fór framhjá Livakovic og skoraði glæsilegt mark.

Króatía jafnaði með sínu fyrsta skoti á rammann, Bruno Petkovic varamaður skoraði en Brasilíumenn voru kæruleysislegir í sinni nálgun. Skot Petkovic breytti um stefnu af Marquinhos og endaði í netinu.

Úrslitin réðust í vítaspyrnukeppni þar sem Livakovic varði frá Rodrygo. Spyrnur Króata voru virkilega öruggar og úrslitin voru ráðin þegar Marquinhos skaut í stöngina. Brasilíumenn niðurbrotnir á meðan Króatar fögnuðu ákaft.

Króatar eru með svarta beltið í framlengingum og vítakeppnum og eru komnir í undanúrslit HM. Rosalegt lið.

Luka Modric var frábær á miðju Króata en maður leiksins er Livakovic markvörður sem varði alls tíu skot í leiknum. Ein af stjörnum mótsins.