fös 09.des 2022
„Get ekki sagt það sem ég er að hugsa því þá fer ég í bann"

Argentínumenn eru allt annað en sáttir þrátt fyrir að hafa komist áfram í undanúrslit á HM í kvöld.Liðið lagði Holland í 8-liða úrslitum eftir sigur í vítaspyrnukeppni en Argentína komst í 2-0 en missti forskotið niður í jafntefli í uppbótartíma venjulegs leiktíma.

Eins og fram kom fyrr í kvöld hraunaði Emiliano Martinez yfir dómara leiksins og Lionel Messi hefur nú einnig tjáð sig um dómarann.

„Þetta er svo pirrandi, leikurinn hefði ekki þurft að enda svona. Ég vil ekki tala um dómarann því mér yrði refsað. Ég get ekki verið hreinskilinn, get ekki sagt það sem ég er að hugsa því þá fer ég í bann. Ég trúi því að fólk sá hvað gerðist," sagði Messi.

„Við vorum hræddir fyrir leikinn því við vissum hvað var að fara gerast. FIFA þarf að hugsa sig um, þeir geta ekki sett svona dómara á svona mikilvægan leik, dómara sem er ekki hæfur í þetta."