þri 20.des 2022
Meistararnir eru komnir heim
Messi gengur með bikarinn frá borði.
Heimsmeistararnir í argentínska landsliðinu mættu aftur heim til Buenos Aires í morgun.

Argentína fór með sigur af hólmi gegn Frakklandi í úrslitaleiknum síðasta sunnudag. Líklega var um að ræða besta úrslitaleik sögunnar, en hann endaði 3-3 og vann Argentína í vítaspyrnukeppni.

Argentínska þjóðin er fótboltaóð og hefur verið blásið til veislu í landinu eftir þennan magnaða sigur.

Landsliðið lenti klukkan 03:30 að morgni til að staðartíma en fékk samt sem áður höfðinglegar móttökur. Svo verða sérstök fagnaðarlæti í Buenos Aires síðar í dag.

Stjórnvöld hafa því lýst yfir almennum frídegi í dag svo landsmenn geti fagnað sigrinum og séð þjóðhetjurnar með bikarinn í höndunum.