þri 03.jan 2023
„Venjulega eru bara þrír eða fjórir blaðamenn hérna“
Ronaldo eftir fréttamannafundinn.
Setið í hverju sæti.
Mynd: EPA

Cristiano Ronaldo ræddi við fjölmiðla í Sádi-Arabíu nú rétt áðan en í gangi er formleg kynning á heimavelli Al-Nassr þar sem Ronaldo er kynntur sem nýr leikmaður félagsins.

„Venjulega eru bara þrír eða fjórir blaðamenn hérna," sagði Rudi Garcia, stjóri Al-Nassr, á fréttamannafundinum en salurinn var pakkfullur af fjölmiðlafólki.

„Þið eruð öll velkomin hingað eftir hvern leik til að ræða um mörkin sem Cristiano mun skora. Það er heiður fyrir mig og Al-Nassr að bjóða Cristiano velkominn."

Segist hafa hafnað fjölda félaga
Hinn 37 ára gamli Ronaldo segist hafa hafnað fjölda félaga áður en hann tók tilboði Al-Nassr. Ronaldo er launahæsti fótboltamaður jarðarinnar.

25 þúsund stuðningsmenn eru mættir á leikvang Al-Nassr til að bjóða Ronaldo velkominn. Ronaldo mætti á fréttamannafund áður en hann hélt út á völlinn.

„Mér líður vel og er stoltur af þessari ákvörðun. Ég er búinn með mitt verk í Evrópu. Ég vann allt þar, spilaði fyrir stærstu liðin og nú er komið að nýrri áskorun í Asíu," segir Ronaldo.

Rætt hefur verið um að Ronaldo hafi ekki fengið önnur tilboð en sá portúgalski segir það ekki rétt.

„Ég var með mörg tilboð; frá Evrópu, Brasilíu, Ástralíu, Bandaríkjunum og líka frá Portúgal. Mörg félög vildu fá mig en ég ætla að hjálpa þessu félagi og fótboltanum í landinu að þróast. Ég er einstakur leikmaður, ég sló öll met í Evrópu og vil líka slá met hér. Þessi samningur er einstakur en ég er einstakur svo það er eðlilegt."

Al Nassr er á toppi Sádi-arabísku deildarinnar með 26 stig en hefur leikið leik meira en Al Shabab (25 stig) og Al Ittihad (24 stig) sem eru í næstu sætum.