sun 08.jan 2023
Man Utd gæti verið refsað fyrir níðsöngvana um Lampard
Mynd: Getty Images

Enska knattspyrnusambandið hefur hrint af stað rannsókn vegna hómófóbískra níðsöngva sem stuðningsmenn Manchester United sungu um Frank Lampard.Man Utd sló Everton úr leik í FA bikarnum með 3-1 sigri og sungu stuðningsmenn Rauðu djöflanna um Lampard, sem er við stjórnvölinn hjá Everton.

Man Utd hefur beðist afsökunar á níðsöngvum stuðningsmanna og getur búist við að fá sekt eða einhvers konar refsingu fyrir þetta stjórnleysi stuðningsmanna.

„Við fyrirlítum notkunina á 'rent boy' slangrinu og ætlum að eyða því úr fótboltaheiminum. Við erum í nánu samstarfi við saksóknara og lögregluyfirvöld vegna notkunar á þessu slangri," segir meðal annars í yfirlýsingu frá enska knattspyrnusambandinu sem ætlar ekki að taka á þeim stuðningsmönnum sem gerast sekir um ósæmandi hegðun með neinum vettlingatökum.

„Við stöndum áfram saman gegn öllum tegundum mismununar og erum að gera allt í okkar valdi til að tryggja að öllum áhorfendum geti liðið vel á vellinum án þess að eiga hættu á að verða fyrir handahófskenndu níði."

Rainbow Devils, LGBTQ+ stuðningsmannahópur Man Utd, hvetur félagið til að finna þá aðila sem sungu þessa níðsöngva og refsa þeim.

Sjá einnig:
Stuðningsmenn Man Utd sungu hómófóbíska söngva um Lampard
Manchester United harmar söngva stuðningsmanna sinna