sun 08.jan 2023
Fertugur M'Bami látinn eftir hjartaáfall

Modeste M'Bami er látinn. Hann fékk hjartaáfall og féll frá í gærmorgun, aðeins 40 ára gamall.



Þetta eru sorgarfréttir en M'Bami er vel þekktur í fótboltaheiminum eftir að hafa unnið til gullverðlauna með Kamerún á Ólympíuleikunum 2000 í Sydney og spilað fyrir Paris Saint-Germain og Marseille í franska boltanum. Árið 2003 endaði hann svo í öðru sæti Álfumótsins með Kamerún.

M'Bami vann franska bikarinn 2004 og 2006 með PSG og lék síðast atvinnumannafótbolta með Le Havre tímabilið 2015-16. Eftir það lagði hann skóna á hilluna og fyrir fjórum árum hafnaði hann tilboði um að ganga til liðs við þjálfarateymi kamerúnska landsliðsins undir stjórn hins portúgalska Antonio Conceicao, sem var rekinn úr starfi tæpu ári fyrir upphafsflautið á HM í Katar.

Árið 2009 hefði M'Bami getað farið í enska boltann en valdi frekar að skipta til Almería á Spáni.