sun 08.jan 2023
Mancini: Ég hef misst annan bróður
Mynd: EPA

Það var sorgardagur þegar Gianluca Vialli greindist með krabbamein í brisi árið 2017 en hann lést á dögunum eftir rúmlega fimm ára baráttu við meinið.Vialli lést aðeins 58 ára gamall og hefur stórvinur hans og landsliðsþjálfari Ítalíu, Roberto Mancini, tjáð sig um goðsögnina sem Vialli var.

Vialli og Mancini kynntust sextán ára gamlir og áttu eftir að gera flotta hluti með ítalska landsliðinu og sérstaklega Sampdoria, þar sem þeir unnu ítölsku deildina saman 1990-91, ítalska bikarinn í þrígang og þáverandi Evrópudeildina 1990 en töpuðu svo úrslitaleik Meistaradeildarinnar gegn Barcelona 1992. Þeir störfuðu síðast saman hjá ítalska landsliðinu sem vann EM 2020 undir stjórn Mancini.

„Við kynntumst 16 ára gamlir og höfum aldrei yfirgefið hvorn annan síðan þá. Í gegnum ítölsku landsliðin, Samp, hápunktana, lágpunktana, sigrana og töpin," sagði Mancini sem missti einnig góðvin sinn Sinisa Mihajlovic á dögunum.

Hjá Sampdoria röðuðu þeir inn mörkunum og voru kallaðir markatvíburarnir því þeir gátu ekki hætt að skora.

Vialli var ráðinn í þjálfarateymi ítalska landsliðsins í október 2019 og tæpum tveimur árum síðar hafði Ítalía unnið Evrópumótið í annað sinn. Tilfinningaþrungið faðmlag Vialli og Mancini eftir sigur í vítaspyrnukeppni á Wembley var mynd mótsins.

Þetta var einstaklega tilfinningaþrungin stund fyrir Mancini og Vialli því þeir eiga minningar frá Wembley, slæmar minningar eftir tapleikinn gegn Barcelona í úrslitum Meistaradeildarinnar 1992.

„Þessi tvö kvöld á Wembley - fyrir mörgum árum þegar við grétum af sársauka og biturð og svo núna síðast þegar við grétum af gleði. Það var eins og við hefðum verið endursameinaðir af örlögunum til að vinna á þessum velli áður en hann lést.

„Hann átti lykilþátt í sigri okkar á Evrópumótinu. Strákarnir dýrkuðu hann og nærveru hans. Hann gaf leikmönnum gott fordæmi með baráttu sinni gegn krabbameini.

„Gianluca var gull af manni, hann var fullkominn og hugrakkur einstaklingur. Það voru forréttindi að fá að vera vinur hans og samherji.

„Það eru bara nokkrir dagar síðan Sinisa lést. Ég hef misst annan lítinn bróður."