sun 08.jan 2023
Napoli fær Bereszynski frá Samp (Staðfest)

Napoli er búið að krækja í pólska bakvörðinn Bartosz Bereszynski sem er fenginn til félagsins sem varamaður fyrir Giovanni Di Lorenzo sem hefur varla fengið frí frá komu sinni til Napoli fyrir þremur og hálfu ári síðan.Bereszynski er 30 ára gamall með rétt tæpa 200 leiki að baki fyrir Sampdoria. Hann kemur til Napoli á lánssamningi út tímabilið með kaupmöguleika. Kjósi Napoli að nýta ekki þann möguleika mun Bereszynski snúa aftur til Samp þar sem hann er samningsbundinn félaginu til sumarsins 2025.

Di Lorenzo er meðal bestu hægri bakvarða ítölsku deildarinnar og á 25 landsleiki að baki fyrir Ítalíu. Þessi 29 ára gamli bakvörður hefur verið öflugur frá komu sinni til Napoli og er ekki hægt að búast við að Bereszynski hrifsi byrjunarliðssætið af honum.

Bereszynski á 50 landsleiki að baki fyrir Pólland og fær nú tækifæri til að verða Ítalíumeistari í fyrsta sinn. Napoli trónir á toppi ítölsku deildarinnar með fimm stiga forystu á ríkjandi meistara AC Milan.

Sampdoria fær Alessandro Zanoli lánaðan frá Napoli út tímabilið í stað Bereszynski. Zanoli er 22 ára gamall hægri bakvörður sem þykir ekki nægilega góður fyrir Napoli sem stendur.