sun 08.jan 2023
[email protected]
Geronimo Rulli til Ajax (Staðfest)
Hollandsmeistarar Ajax eru búnir að festa kaup á varamarkverði argentínska landsliðsins, Geronimo Rulli, sem varð heimsmeistari í Katar í desember.
Ajax hefur verið í markmannsleit eftir að Andre Onana gekk í raðir Inter og Maarten Stekelenburg mistókst að fylla í skarðið. Alfred Schreuder þjálfari hefur verið að nota hinn 39 ára gamla Remko Pasveer sem aðalmarkvörð að undanförnu. Ajax er talið borga um 10 milljónir evra fyrir Rulli sem skrifar undir þriggja og hálfs árs samning sem gildir til sumarsins 2026. Rulli gengur í raðir Ajax frá Villarreal þar sem hann hafði verið í tvö og hálft ár. Rulli er þrítugur og varði mark Villarreal sem vann Evrópudeildina 2021 eftir ótrúlega vítaspyrnukeppni gegn Manchester United. Þar skoraði Rulli sjálfur sigurmarkið úr elleftu vítaspyrnu Villarreal.
|