sun 08.jan 2023
Andri Lucas: Tók tíma að átta okkur á því að við erum góðir í fótbolta
Andri Lucas fór tvisvar á vítapunktinn.
1-1 jafntefli varð niðurstaðan í vináttulandsleik Íslands og Eistlands í dag, sanngjörn úrslit miðað við gang leiksins. Eistar voru betri í fyrri hálfleik en íslenska liðið í þeim seinni.

Andri Lucas Guðjohnsen skoraði jöfnunarmark Íslands af vítapunktinum seint í leiknum en hann hafði áður klúðrað víti.

„Þetta var erfitt, völlurinn ekki sá besti. Mér fannst við eiga flottan leik, við áttum að hafa stjórn á leiknum en það tók okkur smá tíma að átta okkur á því að við erum góðir í fótbolta. Þetta er ekki bara 'negla fram' og vinna skallabolta. Það eru leikmenn sem eru góðir í fótbolta og með gæði. Þetta var flottur leikur en við óheppnir að nýta færin ekki betur," sagði Andri eftir leikinn.

„Þetta er janúarverkefni og margir að koma úr jólafríinu, ég er einn af þeim. En það er geggjað að geta farið í landsliðsverkefni og fyrsti leikur er hörkuleikur."

„Ég hefði getað skorað fleiri mörk en það er eins og það er. Ég var heppinn að fá víti þarna og negli bara í sama horn, hann varði ekki í þetta skiptið," sagði Andri en Ísland leikur annan vináttuleik á fimmtudag, þá gegn Svíþjóð.