fim 12.jan 2023
Hlynur Sævar áfram á Skaganum
Hlynur Sævar Jónsson hefur skrifað undir nýjan samning við ÍA og er nú samningsbundinn félaginu til ársins 2024.

Þetta kemur fram í tilkynningu félagsins á samfélagsmiðlum.

Hlynur er fæddur árið 1999 og kemur upp úr yngri flokka starfi ÍA. Hann er fjölhæfur leikmaður sem er hafsent að upplagi en getur einnig spilað sem bakvörður og miðjumaður.

Í vetur æfði Hlynur með Keflavík en ákvað að taka slaginn áfram á Akranesi.

Hlynur á að baki 111 leiki með Kára, Víking Ó og ÍA í meistaraflokki. Í þessum leikjum hefur hann skorað 14 mörk.

Á síðasta tímabili kom hann við sögu í 21 deildarleik og skoraði eitt mark þegar ÍA féll úr Bestu deildinni.