mið 11.jan 2023
Xavi: Þetta verður ekki auðvelt fyrir Ronaldo
Cristiano Ronaldo mun á næstu dögum spila sinn fyrsta leik fyrir Al-Nassr í Sádi Arabíu en Xavi, þjálfari Barcelona, segir að þetta verði alls ekki auðvelt fyrir leikmanninn.

Ronaldo er launahæsti leikmaður allra tíma. Hann gerði þriggja ára samning við félagið eftir að hafa spilað í Evrópu allan sinn feril.

Hann mun þéna 200 milljónir evra á ári en auglýsingatekjur eru inn í launapakkanum.

Fyrsti leikur Ronaldo verður væntanlega með úrvalsliði deildarinnar gegn Lionel Messi og félögum í Paris Saint-Germain þann 19. janúar, en Xavi segir að Ronaldo eigi eftir að komast að því að deildin í Sádi-Arabíu sé sterkari en margan grunar.

„Al-Nassr er frábært félag og það mun skipta sköpum að hafa Cristiano Ronaldo þarna. Hann mun komast að því að deildin í Sádi-Arabíu er mjög sterk, þannig þetta verður ekki auðvelt, en hann fæddist samkeppnishæfur,“ sagði Xavi.