fim 12.jan 2023
Skotmark Liverpool sagt vilja fara til Atletico
Frábær inn á miðsvæðinu á HM.
Sofyan Amrabat, 26 ára miðjumaður Fiorentina, var orðaður við Liverpool í síðasta mánuði eftir frábæra frammistöðu sína með landsliðið Marokkó á HM í Katar.

Jurgen Klopp var sagður vilja fá inn leikmann inn á miðsvæðið og átti að hafa fundað með teymi Amrabat. Miðjumaðurinn virðist ekki horfa á úrvalsdeildina sem næsta skref.

Foot Mercato segir að eftir samtal við teymi sitt horfi Amrabat á La Liga og vilji spila með Atletico Madrid. Það sé félag sem tikki í öll boxin hjá sér.

Amrabat er samningsbundinn Fiorentina fram á sumarið 2024 og var fjallað um að Liverpool þyrfti að greiða 35 milljónir punda til að fá leikmanninn í sínar raðir.