fim 12.jan 2023
Potter: Rauða spjaldið breytti leiknum
Graham Potter
Joao Felix fékk rautt í fyrsta leik
Mynd: EPA

Graham Potter, stjóri Chelsea, segir rauða spjaldið sem Joao Felix fékk á sig í 2-1 tapinu gegn Fulham hafa breytt leiknum.

Felix fékk að líta rauða spjaldið í fyrsta leik sínum í bláa búningnum en það kom á 58. mínútu í stöðunni 1-1.

Portúgalinn fór í hættulega tæklingu á Kenny Tete og fékk verðskuldað rautt spjald.

Chelsea hefur nú tapað þremur leikjum í röð í öllum keppnum og er ekki alveg að finna taktinn.

„Mér fannst við stjórna leiknum snemma. Við unnum boltann hátt uppi og sköpuðum nokkur færi en það vantaði þessa úrslitasendingu. Við gerðum nokkur mistök í markinu sem þeir skora en viðbrögðin voru góð í síðari hálfleik og svo breytti rauða spjaldið leiknum og gerði þetta erfiðara fyrir okkur. Mér fannst við samt bera okkur vel manni færri. Ég er vonsvikinn með markið því mér fannst við geta gert betur og það kostaði okkur.

Potter var ánægður með frammistöðu Felix, eða alveg fram að rauða spjaldinu.

„Þetta var alvöru framherjatækling. Það var engin illgirni í þessu en ég skil af hverju það var gefið rautt fyrir þetta. Þetta er enn eitt höggið sem við fáum á okkur. Hann var mjög góður og það mátti sjá gæði hans í leiknum en þetta er alveg 'extra' mikil vonbrigði fyrir okkur.“

Það er ekkert annað í stöðunni en að halda áfram segir Potter enn fremur.

„Við þurfum að halda áfram að vinna okkar vinnur, það er engin önnur lausn. Við þurfum að halda áfram að þjappa okkur saman og reyna að ná í þrjú stig,“ sagði hann í lokin.