fim 12.jan 2023
Arsenal leggur fram nýtt tilboð í Mudryk
Mykhailo Mudryk
Arsenal er ákveðið í því að fá úkraínska leikmanninn Mykhailo Mudryk frá Shakhtar Donetsk en félagið hefur nú lagt fram nýtt tilboð í kappann.

Enska félagið lagði fram 45 milljón punda tilboð fyrir áramót en Shaktar hafnaði því um leið.

Viðræður hafa staðið yfir síðustu tvær vikur en félögin ekki enn komist að samkomulagi.

Ítalski blaðamaðurinn Fabrizio Romano fullyrðir nú að Arsenal hafi lagt fram nýtt 62 milljón punda tilboð í Mudryk og vonast eftir því að Shakhtar samþykki það.

Mudryk er 22 ára gamall og er talinn efnilegasti leikmaður Úkraínu en hann er þessa stundina í æfingaferð með Shakhtar í Tyrklandi.

Leikmaðurinn hefur ekki farið leynt með áhuga sinn á að ganga í raðir Arsenal og regulega birt myndir af leikjum Arsenal í Instagram-sögu sína.