fös 13.jan 2023
Sjáðu fyrsta landsliðsmark Söru, og það síðasta
Sara Björk Gunnarsdóttir.
Sara Björk Gunnarsdóttir er ein besta fótboltakona sem Ísland hefur átt, ef ekki sú besta. Hún er allavega sú sigursælasta.

Hún lagði í gær landsliðsskóna á hilluna eftir magnaðan feril þar sem hún fór á öll fjögur stórmótin sem Ísland hefur komist á hingað til.

Sara, sem er 32 ára gömul, átti magnaðan landsliðsferil og er hún leikjahæsta landsliðskonan í sögunni með 145 A-landsleiki. Hún gerði í þeim 45 mörk.

Hún lék sinn fyrsta A-landsleik þegar hún var 16 ára gömul gegn Slóveníu. Hún var lengi vel fyrirliði, en hennar síðasti landsleikur var tapið sorglega gegn Portúgal í október síðastliðnum.

KSÍ hefur birt myndband af hennar fyrsta landsliðsmarki sem kom gegn Írlandi árið 2008. Einnig má sjá hennar síðasta landsliðsmark í myndbandinu en það kom í fyrra gegn Hvíta-Rússlandi. Í þeim leik gerði hún tvennu. Jafnframt var það hennar síðasti leikur á Laugardalsvelli.