fös 13.jan 2023
„Líklega rétt að ég sé í leit að liði"
Aron Bjarki
Aron Bjarki Jósepsson lék með ÍA á síðasta tímabili, samdi við félagið til eins árs fyrir tímabilið 2022. Framhaldið hjá varnarmanninum er óljóst.

„Ég veit það eiginlega ekki, jú líklega er ég að leita mér að félagi. Ég reikna með því að spila áfram svo lengi sem ég finn mér eitthvað skemmtilegt verkefni til að taka þátt í," sagði Aron við Fótbolta.net í dag.

Samningur hans rann út eftir að tímabilinu lauk og í vikunni var tilkynnt að varnarmennirnir Alex Davey og Hlynur Snævar Jónsson yrðu áfram hjá félaginu. Þá hefur eitthvað verið slúðrað að Johannes Vall verði notaður sem miðvörður á komandi tímabili. Samkvæmt heimildum Fótbolta.net stefnir ÍA ekki á að framlengja við Aron Bjarka.

Hann er 33 ára gamall miðvörður sem gekk í raðir ÍA frá KR fyrir síðasta tímabil. Hann lék alls í 19 leikjum í deild og bikar með Skagamönnum og skoraði í þeim tvö mörk.

„Ég er ekki búinn að klára neitt með Skagann, síðast þegar ég vissi átti ég von á tilboði. Það er líklega rétt að ég sé í leit að liði. En kannski er tilboðið á leiðinni. Ég hef ekki verið að leita aktívt að öðru félagi, en verið að hugsa hvað ég ætti að gera. Þannig er bara staðan, ekkert mikið í gangi, en heyrt af áhuga hér og þar. Ekkert mikið annað."

„Ég hef verið að æfa sjálfur, fékk líka að kíkja á nokkrar æfingar með KR fyrir áramót og fékk að taka nokkrar æfingar með KV, kem mér í bolta hér og þar og held mér svo við í ræktinni. Ég þarf kannski að fara á fullt að fara finna mér lið, helst í efstu deild,"
sagði Aron Bjarki.