fös 20.jan 2023
De Zerbi: Erum gott lið og getum spilað vel með Leo og án hans
Leandro Trossard er að fara til Arsenal.
Moises Caicedo.
Mynd: Getty Images

Belgíski landsliðsmaðurinn Leandro Trossard er á leið frá Brighton til Arsenal en félögin komust að samkomulagi í gær. Roberto de Zerbi, stjóri Brighton, ræddi um þennan 28 ára vængmann á fréttamannafundi í morgun.

„Þetta var erfið staða að mér finnst, hann vildi fara. Mér þykir leiðinlegt hvernig þetta endaði því ég vil að fólk komi hreint fram við hvort annað þegar það eru skoðanaárekstrar," segir De Zerbi en samband hans við Trossard var orðið ansi stirrt.

„Að því sögðu þá finnst mér við vera gott lið, lið sem geti spilað vel með Leo og án hans."

Mun Brighton fara út á markaðinn í kjölfarið?

„Þú getur alltaf bætt liðið á markaðnum, það er alltaf hægt að kaupa nýja menn. En við erum á góðum stað og erum með góða leikmenn. Það er ekki auðvelt að bæta hópinn. En ef það bjóðast möguleikar þá munum við gera eitthvað."

Vill halda Caicedo, allavega til sumars
Chelsea vill fá ekvadorska miðjumanninn Moises Caicedo og greint hefur verið frá því að Brighton hafi hafnað tilboði í hann.

„Moises er okkur mjög mikilvægur. Það er erfitt að fylla hans skarð á þessum tímapunkti. Ég vona að hann klári tímabilið með okkur en það er erfitt að fullyrða eitthvað. Þegar stór lið vilja leikmenn okkar eru það góðar fréttir fyrir félagið," segir De Zerbi.

„Besta lausnin er að hann klári tímabilið með okkur, fyrir okkur og fyrir hann. Það er hentugra að skipta um félag yfir sumartímann."

Brighton heimsækir Leicester klukkan 15 á morgun.