fös 20.jan 2023
Fimmtán stig dregin af Juventus - Agnelli í tveggja ára bann
Stjórnin fær bann
Andrea Agnelli, fyrrum forseti Juventus, fer í tveggja ára bann
Mynd: EPA

Fimmán stig verða dregin af Juventus í Seríu A en þetta varð ljóst í dag eftir að áfrýjunardómstóllinn á Ítalíu samþykkti beiðni saksóknara um að opna mál upp á nýtt gegn félaginu, en það er sakað um alvarleg fjársvik. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ítalska knattspyrnusambandinu.

Juventus var til rannsóknar vegna ásakana um svindl í bókhaldi og faldar greiðslur til leikmanna. Ítalska félagið tapaði 254 milljónum evra á síðasta ári, sem er met á Ítalíu.

Í COVID-faraldrinum bað Juventus leikmenn um að gefa eftir fjögurra mánaða laun til að hjálpa rekstri félagsins. Leikmennirnir gáfu í raun bara eftir einn mánuð en rest borgaði Juventus í svörtu og gat því félagið forðast að greiða skatta. Bókhaldið var síðan falsað til að halda öllu í jafnvægi.

Rannsóknin hófst eftir að ítalskir miðlar greindu frá því að Cristiano Ronaldo hefði verið með háleynilegan samning við félagið og fengið greiðslur sem ekki voru gefnar upp.

Öll stjórn Juventus sagði af sér í lok nóvember vegna rannsóknarinnar en í dag var málið opnað upp á nýtt og fékk saksóknari ítalska knattspyrnusambandsins sitt í gegn, en fimmtán stig verða dregin af Juventus. Liðið mun því fara úr 3. sæti og niður í 11. sæti.

Juventus á enn möguleika á að áfrýja þessum dómi til CONI Guarantee College.

Þeir stjórnarmenn sem sögðu sig úr stjórninni í nóvember fá allir bann frá fótbolta samkvæmt ítalska íþróttafréttamanninum Fabrizio Romano.

Fabio Paratici fær 2,5 árs bann frá fótbolta á meðan Andrea Agnelli, fyrrum stjórnarmaður félagsins, fær 2 ára bann ásamt Maurizio Arrivabene, fyrrum framkvæmdastjóra Juventus.

Pavel Nedved fær átta mánaða bann.