fös 20.jan 2023
Pumas riftir samningi Dani Alves
Mexíkóska félagið Pumas hefur ákveðið að rifta samningi sínum við brasilíska hægri bakvörðinn Dani Alves vegna ásakana um kynferðisofbeldi en þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu í dag.

Alves gaf sig fram til lögreglu í dag en hann er grunaður um að hafa brotið kynferðislega á konu á næturklúbbi í Barcelona undir lok síðasta árs.

Leikmaðurinn, sem er 39 ára, neitar ásökunum, en hann var yfirheyrður í dag og mætti síðan fyrir dómara. Hann fær ekki lausn gegn tryggingu og var því færður í fangelsi.

Alves gekk í raðir Pumas í Mexíkó á síðasta ári en samningur hans átti að renna út í sumar. Félagið hefur nú tekið ákvörðun um að rifta samningi hans.

Síðasti leikur Alves var fyrir tólf dögum síðan í fyrstu umferð deildarinnar en hann var síðan ekki í leikmannahópnum í 3-0 tapinu gegn Santos Laguna fyrir fimm dögum.