lau 21.jan 2023
[email protected]
Tchouameni biður stuðningsmenn Real afsökunar
Aurelien Tchouameni, miðjumaður Real Madrid og franska landsliðsins, hefur beðið félagslið sitt afsökunar á ákvörðunartöku sinni.
Þessi 22 ára gamli leikmaður hefur misst af síðustu þremur leikjum Real en hann meiddist á kálfa fyrr í þessum mánuði.
Hann spilaði ekki í Ofurbikarnum í Sádí-Arabíu og þá var hann ekki í leikmannahópnum þegar Real náði frábærri endurkomu gegn Villareal í spænska bikarnum.
Tchouameni var í Accor Arena í París að fylgjast með NBA leik hjá Chicago Bulls og Detroit Pistons á meðan Real var að spila í bikarnum.
„Ég vil biðja félagið, stuðningsmennina, liðsfélaga mína og þjálfarateymið afsökunar á því að hafa verið á viðburði á meðan leikurinn í bikarnum fór fram," skrifaði Frakkinn á samfélagsmiðlum.
„Ég fylgdist með hvað var að gerast í leiknum gegn Villareal en þetta var ekki rétt ákvörðun hjá mér. Ég biðst fyrirgefningar."
Real verður í eldlínunni á morgun þegar það mætir Athletic Bilbao í deildarkeppninni og spurning hvort Tchouameni mæti á þann leik.
|