lau 21.jan 2023
Messi er ekki í viðræðum við Al-Hilal - Mun framlengja við PSG
Lionel Messi
Lionel Messi, leikmaður Paris Saint-Germain í Frakklandi, mun framlengja samning sinn við félagið. Þetta segir ítalski blaðamaðurinn Fabrizio Romano.

Heimsmeistarinn verður samningslaus í sumar en hann hefur verið orðaður við sitt gamla félag Barcelona og þá eru félög í MLS-deildinni einnig áhugasöm.

Á dögunum var greint frá því að Al-Hilal í Sádi-Arabíu væri í viðræðum um að gera Messi að launahæsta leikmanni heimsins og væri það svar liðsins við félagaskiptum Cristiano Ronaldo til Al-Nassr.

Það er ekkert til í þeim fregnum samkvæmt Romano en hann er mjög nálægt því að framlengja samning sinn í París.

Messi er að eiga frábært tímabil með frönsku meisturunum en hann hefur komið að 27 mörkum í 21 leik á þessari leiktíð.