sun 22.jan 2023
Fullyrðir að Conte yfirgefi Tottenham í sumar
Antonio Conte
Ítalski blaðamaðurinn GIanluca Di Marzio fullyrðir það í dag að Antonio Conte, stjóri Tottenham, yfirgefi félagið í sumar er samningur hans rennur sitt skeið.

Conte skrifaði undir eins og hálfs árs samning við Tottenham í nóvember árið 2021 og klárast sá samningur því í sumar en ekkert bendir til þess að hann framlengi við félagið.

Tottenham á möguleika á að virkja ákvæði í samningnum sem myndi framlengja hann um ár til viðbótar en það er ekki í spilunum.

Ítalski stjórinn hefur aðeins unnið þrjá af síðustu níu leikjum í deildinni og situr nú í 5. sæti deildarinnar.

Conte hefur sjálfur talað um það að hann gæti tekið sér frí frá þjálfun eftir að hafa misst þrjá góða vini á stuttum tíma en þeir Gianluca Vialli, Sinisa Mihajlovic og styrktarþjálfarinn, Gian Piero Ventrone, eru allir komnir yfir móðuna miklu.

Gianluca Di Marzio, einn virtasti blaðamaður Ítalíu, fullyrðir það að Conte verði ekki áfram hjá Tottenham eftir þetta tímabil.

„Eitt sem ég get sagt ykkur sem er öruggt og það er að Antonioe Conte mun yfirgefa Tottenham eftir tímabilið. Félagið hefur ekki óskað eftir því við hann að framlengja samninginn,“ sagði Di Marzio.