sun 22.jan 2023
Alves breytti frásögn sinni þrisvar
Dani Alves
Dani Alves, fyrrum leikmaður Barcelona og brasilíska landsliðsins, situr nú í fangelsi og bíður örlaga sinna, en hann er ásakaður um að hafa nauðgað 23 ára gamalli konu á skemmistað í Barcelona.

Alves var úti að skemmta sér þann 30. desember á vinsælum skemmtistað í borginni og er þar sagður hafa brotið kynferðislega á konu inni á baðherbergi skemmtistaðarins.

Konan tilkynnti um brotið til starfsmanna og var færð í öruggt herbergi á meðan leitað var að Alves, en hann hafði þó yfirgefið svæðið.

Alves gaf sig fram til lögreglu fyrir helgi og var yfirheyrður áður en hann var færður fyrir dómara. Leikmaðurinn fær ekki að vera laus gegn tryggingu á meðan rannsókn málsins fer fram.

Er hann mætti fyrir dómara breytti Alves frásögn sinni þrisvar sinnum en samkvæmt El Periodico er til myndband úr öryggismyndavél sem sýnir að Alves og konan voru inni á baðherbergi í fimmtán mínútur.

Í skýrslu lögreglu sagði konan að Alves hafi neytt hana til þess að eiga við sig kynmök.

Alves gæti átt yfir höfði sér tólf ára fangelsi ef hann verður fundinn sekur.