fim 26.jan 2023
[email protected]
Keane hrósar Weghorst: Gefið honum séns!
Roy Keane, sparkspekingur hjá Sky Sports og fyrrum fyrirliði Manchester United, hrósaði framherjanum Wout Weghorst eftir sigur Manchester United gegn Nottingham Forest í gær. Leikurinn endaði 3-0 fyrir United og var um að ræða fyrri leik liðanna í undanúrslitum deildabikarsins. Weghorst skoraði annað mark liðsins í gær.
„United varð að fá einhvern inn. Stjórinn var skýr með það, það var ekki til peningur til að eyða í leikmann. Þeir misstu Ronaldo, spurningamerki hafa verið sett við formið á Anthony Martial... þess vegna skil ég af hverju var veðjað á Weghorst."
„Ég er ekki viss um að hann verði einhver markavél en ef hann skilar inn marki hér og marki þar eins og í gær og hjálpar Marcus... hann er landsliðsmaður - hann er enginn grínkall!"
„Fólk sá hann eiga erfitt uppdráttar hjá Burnley og það mótar skoðun þeirra á honum. Gefið honum séns, hann skoraði mikilvægt mark fyrir United í kvöld. Gangi honum vel."
„Hann skortir hraða sem getur verið vandamál þegar United reynir að stíla inn á skyndisóknir, það þarf að nýta styrkleika hans. Hann tengdi vel við leikmenn, og gerði vel í markinu."
„Það er ástæða af hverju hann kom á láni, því hann er augljóslega ekki í allra hæsta gæðaflokki. En það mikilvæga er að stjórinn þekkir hann vel," sagði Keane. Weghorst er á láni frá Burnley út tímabilið. Hann kom eftir að hafa spilað fyrri hluta tímabilsins hjá Besiktas í Tyrklandi.
|