fim 26.jan 2023
Guardiola: Arteta gerði mig að betri stjóra - Sást að hann hélt með Arsenal
Saman á bekknum.
Pep Guardiola, stjóri Manchester City, sat fyrir svörum á fréttamannafundi fyrir leikinn gegn Arsenal í enska bikarnum annað kvöld.

Liðin eru í efstu tveimur sætum úrvalsdeildarinnar og stjórarnir þekkjast vel því Mikel Arteta var aðstoðarmaður Pep hjá City áður en hann tók við starfinu hjá Arsenal. Pep var spurður út í Arteta.

„Við áttum í samskiptum áður en ég tók við starfinu hér. Við áttum samtöl og ákváðum að starfa saman. Hann sagðist geta hjálpað mér, hann þekkti úrvalsdeildina fullkomlega, alla stjórana."

„Eftir hálftíma samræður þá ákvað ég að hann væri rétti maðurinn. Hans áhrif á mig gerðu mig að betri stjóra."

„Ég hef haft marga aðstoðarmenn og hef aldrei viljað hafa menn sem eru alltaf sammála mér. Við vorum á því að ef það kæmi félag sem vildi fá Arteta þá mætti hann fara. Ég er ekki einn af þeim sem segir mönnum að þeir verði að vera. Allir eru með draum og ég veit að hann fór til félags sem hann heldur með."

„Þegar hann var hér og við skoruðum mörk, þá stökk hann upp og fagnaði, nema gegn einu félagi. Á móti þeim var það ég sem stökk upp, leit við og þá sat hann. Það lið var Arsenal,"
sagði Guardiola.