fim 26.jan 2023
Bajcetic búinn að skrifa undir nýjan samning við Liverpool

Miðjumaðurinn efnilegi Stefan Bajcetic er búinn að skrifa undir nýjan samning við Liverpool sem gildir í fjögur og hálft ár, eða út keppnistímabilið 2026-27.Bajcetic er aðeins 18 ára gamall og stækkar hlutverk hans með aðalliðinu ört. Hann var í byrjunarliði Liverpool í síðustu tveimur leikjum þar sem liðinu tókst að halda hreinu gegn Wolves og Chelsea. 

Bajcetic gekk í raðir Liverpool fyrir þremur árum þegar hann kom frá uppeldisfélaginu Celta Vigo, sem faðir hans Srdan Bajcetic lék fyrir á sínum tíma.

„Ég er í skýjunum með nýja samninginn. Þetta er draumur að rætast. Ég og fjölskyldan mín skrifum undir þennan samning með stolti," sagði Bajcetic meðal annars við undirskriftina.

Bajcetic er spænskur en mun einnig geta valið að spila fyrir A-landslið Serbíu í framtíðinni þar sem faðir hans er Serbi.