fim 26.jan 2023
[email protected]
James Bree til Southampton (Staðfest)
 |
 |
Mynd: EPA
|
Hægri bakvörðurinn James Bree er búinn að skrifa undir þriggja og hálfs árs samning við Southampton. Bree getur einnig spilað sem miðvörður og er fenginn til að auka breiddina í varnarlínunni.
Southampton kaupir Bree af Luton Town sem leikur í Championship deidinni. Bree er 25 ára gamall og hefur aldrei spilað í úrvalsdeildinni en hann er mikilvægur hlekkur í liði Luton. Hann á leiki að baki fyrir ýmis félög í Championship deildinni, meðal annars Aston Villa, og fær nú tækifæri til að sanna sig á stærsta sviðinu. Hjá Southampton mun hann þó berjast við menn á borð við Kyle Walker-Peters, Lyanco og Romain Perraud um byrjunarliðssæti. Bree er þriðji leikmaðurinn sem gengur í raðir Southampton í janúarglugganum eftir Mislav Orsic og Carlos Alcaraz. Kaupverðið er óuppgefið en það er talið vera afar lágt þar sem samningur Bree við Luton var að renna út næsta sumar. Enskir fjölmiðlar giska á að kaupverðið nemi um 750 þúsund pundum. Southampton er í harðri fallbaráttu í úrvalsdeildinni og vermir botnsætið með 15 stig eftir 20 umferðir. Cody Drameh, efnilegur bakvörður Leeds United, mun líklegast fylla skarð Bree hjá Luton. Drameh er meðal annars eftirsóttur af Borussia Dortmund og fer til Luton á lánssamningi.
|