fim 26.jan 2023
Forseti Lyon: Gusto fer ekki í janúar

Jean-Michel Aulas, forseti Lyon í Frakklandi, segir hægri bakvörðinn Malo Gusto ekki vera á förum frá félaginu í janúarglugganum.Chelsea er að reyna að ganga frá kaupum á Gusto en Aulas vill ekki missa bakvörðinn svo seint í glugganum.

„Ég get staðfest að Malo Gusto verður hjá okkur út tímabilið hið minnsta," sagði Aulas við fjölmiðla í dag.

Hinn 19 ára gamli Gusto er búinn að komast að samkomulagi við Chelsea en hann er samningsbundinn Lyon til 2024.

Chelsea er í vandræðum með hægri bakvarðarstöðuna hjá sér eftir meiðsli Reece James. Cesar Azpilicueta hefur ekki þótt nægilega góður og spilaði Hakim Ziyech til að mynda í hægri vængbakverði í síðasta leik - markalausu jafntefli gegn Liverpool. Þá var miðvörðurinn Trevoh Chalobah prófaður í hægri bakverði í fjögurra manna varnarlínu Chelsea í 1-0 sigri gegn Crystal Palace á dögunum.