fös 27.jan 2023
Aguero svarar Zlatan: Við erum heimsmeistarar og þú vilt drepa þig
Mynd: Getty Images

Sergio Agüero, fyrrum sóknarmaður argentínska landsliðsins og Manchester City, hefur svarað Zlatan Ibrahimovic fullum hálsi eftir gagnrýni hans á hegðun leikmanna Argentínu á HM.Zlatan var harðorður í garð Argentínumanna og sagði að enginn leikmaður úr þessu liði myndi vinna annað stórmót með svona hegðun. Aguero ákvað að nýta tækifærið til að rifja upp ferilinn hjá Zlatan og minna Svíann á að hann hagaði sér einnig illa á köflum.

„Við skulum ekki gleyma því að þú hagaðir þér stundum illa á þínum ferli, ekki satt? Ég man þegar við spiluðum við United og ég var á bekknum í þeim leik. Þú forðaðir þér ekki frá átökum og reifst kjaft. Ég held ekki að þú sért rétti maðurinn til að dæma einhvern fyrir slæma hegðun. Mér finnst ljótt að segja að þessir strákar muni aldrei vinna framar," sagði Aguero á Twitch rásinni sinni.

„Áður en þú ferð að hafa áhyggjur af Argentínu þá ættirðu að hafa áhyggjur af þínu eigin landi, þínum leikmönnum, sem komust ekki einu sinni á síðustu heimsmeistaramót. Gætum við hugsað okkur að komast ekki einu sinni á HM? Þetta er mín skoðun, alveg eins og þú ert með þína skoðun.

„Þú hefur alltaf verið til vandræða. Ég man þegar þú lentir í rifrildum við Otamendi í leik hjá City gegn United. Svo reifstu við Pep Guardiola og ég get ímyndað mér að það sé ástæðan fyrir því að hann vildi selja þig frá Barcelona. Áður en þú dæmir argentínsku landsliðsmennina ættirðu að líta í eigin barm og horfa til baka á þinn eigin feril og sjá hvort þú hafir alltaf hagað þér vel. Ég tel ekki að þú hafir gert það."

Nokkrir fylgjendur Aguero voru snöggir að benda honum á að hann væri að hjóla full harkalega í Zlatan með þessum ummælum sínum.

„Rógburður gegn Zlatan? Hann er með rógburð gegn liðsfélögunum mínum. Hann er kannski með rógburð gegn mér líka því ég var þarna með liðinu. Mér líður eins og hann hafi ráðist á mig svo ég ræðst á hann til baka.

„Við erum heimsmeistarar, Zlatan, og þú vilt drepa þig. Messi er besti leikmaður sögunnar. Og þú varst þarna á vellinum og horfðir á þessa leikmenn sem höguðu sér illa hampa titlinum."