fös 27.jan 2023
Áfram laus gegn tryggingu á meðan málin eru til rannsóknar
Leikmaður í ensku úrvalsdeildinni verður laus gegn tryggingu fram á næsta sumar eftir að hann var handtekinn síðasta sumar grunaður um tvær mismunandi nauðganir.

Fjölmiðlar á Englandi hafa ekki enn nafngreint leikmanninn þar sem lögin þar í landi eru mjög ströng er kemur að nafnbirtingu í svona málum. Þó hefur nafn Thomas Partey verið birt í fjölmiðlum í öðrum löndum og hefur verið hávær orðrómur um það á samfélagsmiðlum að umræddur leikmaður sé hann. Hvorki hann né Arsenal hafa með einhverjum hætti reynt að kveða þann orðróm niður.

Partey neitar ásökunum og hefur haldið áfram að spila fyrir félag sitt, Arsenal.

Hann hefur verið lykilmaður í liði Arsenal á þessari leiktíð, en liðið er sem stendur á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.

Málið er enn til rannsóknar en Partey fær að ganga laus á meðan rannsókninni stendur - gegn tryggingu. Núna er greint frá því að tryggingin gildi til júlímánaðar á þessu ári og verður því vel fylgst með honum á meðan.