fös 27.jan 2023
„Árni kemur inn í liðið og svo er það hans að halda stöðunni"
Árni Snær.
Haraldur Björnsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Stjarnan tilkynnti í gær að markvörðurinn Árni Snær Ólafsson væri genginn í raðir félagsins. Árni kemur frá ÍA þar sem hann hefur leikið allan sinn feril.

Í tilkynningu Stjörnunnar sagði að til mikils væri ætlast af Árna í sumar. Það vekur upp spurningar um stöðuna á Haraldi Björnssyni sem hefur varið mark Stjörnunnar undanfarin ár.

„Halli fór í aðgerð á mjöðm fyrir áramót og er að koma til baka. Hann er væntanlegur í byrjun mars þegar við förum í æfingaferð. Það tekur einhverja þrjá mánuði að koma til baka og hann er á ágætis róli með það. Hann er nýbyrjaður að hlaupa og farinn að grípa bolta" sagði Ágúst Gylfason, þjálfari Stjörnunnar, við Fótbolta.net.

Er hugsunin á bakvið það að fá Árna inn einhver samkeppnispæling?

„Já, við viljum vera með gott markmannsteymi. Við erum með ungan og efnilegan leikmann sem er að koma upp úr 2. flokki í Viktori. Hugsunin með þessu er að skoða mögulegt lán fyrir hann, hann þarf að fá einhverjar mínútur." Viktor Reynir Oddgeirsson (2003) kom við sögu í einum leik á síðasta tímabili, kom inn á gegn Víkingi þar sem Haraldur þurfti að fara af velli vegna meiðsla.

„Árni er frábær markmaður og eins og við nefndum í tilkynningunni þá hentar leikstíll hans okkur mjög vel. Hann er einn besti markmaðurinn í fótunum, getur bæði spilað stutt og langt. Það hentar okkur mjög vel í því sem við erum að gera."

„Árni kemur inn og er að fara spila næstu leiki. Við höfum verið dálítið lemstraðir í markmannsstöðunni. Við erum að fara spila við Keflavík strax um helgina. Árni kemur inn í liðið og svo er það hans að halda stöðunni. Halli kemur til baka á einhverjum tímapunkti og það verður bara góð og eðlileg samkeppni þarna á milli."


Þyrfti að vera verulega öflugur leikmaður
Er eitthvað fleira væntanlegt frá Stjörnunni á næstunni?

„Við erum búnir að vera ágætir á markaðnum. Búnir að fá leikmenn inn í það sem okkur finnst hafa vantað. Þessir nýju leikmenn hafa komið vel inn í hópinn. Við erum ekki búnir að loka neinu, munum skoða hvernig staðan verður á hópnum. Við erum með stóran og góðan hóp, mikið af ungum strákum. Ef við fáum einhvern leikmann til viðbótar þá þarf hann að vera verulega öflugur og styrkja helst byrjunarliðið," sagði Gústi.

Komnir
Andri Adolphsson frá Val
Árni Snær Ólafsson frá ÍA
Guðmundur Kristjánsson frá FH
Heiðar Ægisson frá Val
Joey Gibbs frá Keflavík
Þorbergur Þór Steinarsson frá HK

Farnir
Einar Karl Ingvarsson í Grindavík
Elís Rafn Björnsson í Fylki
Ólafur Karl Finsen
Óskar Örn Hauksson í Grindavík