lau 28.jan 2023
Stuðningsmenn Atletico láta Depay heyra það - Feitur og hægur

Hollendingurinn Memphis Depay gekk í raðir Atletico Madrid frá Barcelona fyrr í þessum mánuði og hefur hann spilað tvo leiki fyrir félagið til þessa.Í bæði skiptin hefur hann komið inn á sem varamaður en óhætt er að segja það að stuðningsmenn Atletico eru langt því frá að vera sáttir með leikmanninn til þessa.

Þeir kalla hann feitan, segja að hann sé hægur og í engu formi. Mikil umræða hefur myndast í kringum Depay á meðal stuðningsmanna Atletico á samfélagsmiðlum.

Depay kom inn á í tapleiknum gegn Real Madrid í fyrradag í spænska bikarnum en þar náði hann ekki að setja mark sitt á leikinn.

Depay er 28 ára en hann var keyptur á þrjár milljónir evra fyrir um einni viku síðan. Hann hefur verið töluvert meiddur á þessu tímabili svo það er spurning hvort stuðningsmenn Atletico verði ekki að gefa kappanum smá meiri tíma.