lau 28.jan 2023
McKennie á leið til Leeds - Félögin náð samkomulagi

Bandaríski miðjumaðurinn Weston McKennie er á leiðinni til Leeds United en Max Allegri, þjálfari Juventus, staðfesti að félögin hafa náð samkomulagi.



McKennie fer til Leeds á láni en enska félagið getur síðan keypt hann þegar lánssamningi lýkur.

„Félögin hafa náð samkomulagi. Weston verður ekki í leikmannahópnum á morgun," sagði Allegri en Juventus mætir þá Monza í Serie A.

Leeds mun borga 1,2 milljónir evra fyrir lánssamninginn og eftir hann getur félagið keypt McKennie á 33 milljónir evra. Mckennie sjálfur hefur náð samkomulagi við Leeds.

McKennie er fæddur árið 1998 en hann kom til Juventus á láni frá Schalke árið 2020. Eftir það var hann keyptur til félagsins endanlega.

Hann á að baki 70 leiki og níu mörk hjá Juve og þá hefur hann spilað 41 landsleik fyrir Bandaríkin.