lau 28.jan 2023
Ítalía: Inter aftur á sigurbraut þökk sé Lautaro
Mynd: EPA

Inter er komið aftur á sigurbraut eftir nauman sigur á útivelli gegn botnliði ítölsku deildarinnar.David Okereke tók forystuna fyrir heimamenn í Cremonese með glæsilegu marki sem er hægt að sjá með að smella hér.

Inter var ekki lengi að bregðast við og jafnaði Lautaro Martinez metin á 21. mínútu og hélst staðan jöfn allt þar til í síðari hálfleik. Þá var Lautaro aftur á ferðinni þegar hann skoraði eftir undirbúning frá Edin Dzeko sem átti góðan leik og var óheppinn að skora ekki.

Romelu Lukaku fékk að spila síðasta stundarfjórðunginn en tókst ekki að bæta við marki. 

Inter er í öðru sæti eftir sigurinn, tíu stigum eftir toppliði Napoli sem á leik til góða gegn Roma annað kvöld.

Cremonese 1 - 2 Inter
1-0 David Okereke ('11)
1-1 Lautaro Martinez ('21)
1-2 Lautaro Martinez ('65)

Í Empólí var Razvan Marin allt í öllu í liði heimamanna þar sem hann gaf stoðsendingu úr hornspyrnu og skoraði svo sjálfur til að koma Empoli í tveggja marka forystu.

Gestirnir frá  Tórínó komu til baka á lokakaflanum og tókst að jafna með mörkum frá Samuele Ricci og Antonio Sanabria.

Eitt stig skilur liðin að um miðja deild, aðeins nokkrum stigum frá sjöunda sætinu sem veitir þátttökurétt í Sambandsdeildina næsta haust.

Empoli 2 - 2 Torino
1-0 Sebastiano Luperto ('37)
2-0 Razvan Marin ('69)
2-1 Samuele Ricci ('82)
2-2 Antonio Sanabria ('85)